laugardagur, 31. maí 2008

Sól og rautt hár

Fyrripart síðustu viku var svo gott veður að ég gat verið mikið úti, ég hef aldrei verið svona mikið úti á æfinni og það var mikið að skoða og ýmislegt sem þurfti að smakka á . Því það er nú nefnilega einusinni þannig að maður veit ósköp lítið um heiminn fyrr en maður er búinn að smakka á honum, allavega finnst mér það. Það er kringlótt ljós langt uppi í bláum himninum sem heitir sól og ef maður er lengi úti þá getur maður brunnið en mamma smurði á mig sólarvörn um allan haus og hvort sem það var sólin eða sólarvörnin að þá virtist hárið á mér hafa tekið vaxtarkipp. Þetta varð til þess að amma á Skipó fór að rýna í hárið á mér því það versta sem hún getur hugsað sér er að ég verði rauðhærður, það hefur hún margoft sagt og hvort sem það var roðinn eftir sólina eða eitthvað annað þá þóttist hún sjá þess greinileg merki að ég yrði rauðhærður "aumingjans, vesalings barnið" sagði hún. Það sér reyndar enginn annar rauð hár á mér enda eru þau svo fá og smá þessi hár að erfitt er að segja um það ennþá. En það er þó alveg ljóst að ég "fæ hár".

Ég hef mjöööög gaman af ferðafólki og hleyp oft á móti gestum sem eru að koma, mér finnst svo gaman þegar fólk tekur mig upp og helst vil ég máta aðeins fangið á öllum. Nafnið mitt vefst þó allt of mikið fyrir útlendingum. Þegar spurt er hvað ég heiti þá sé ég bara skelfingarsvip á fólki þegar mamma segir "Sigurjón Torfi" það er mikill tungubrjótur fyrir venjulega erlenda ferðamenn svo að ég er alveg eins bara kallaður Nonni, sem mér finnst bara fínt.

Takk fyrir commentin á síðuna mína og gaman að fá frá ykkur línu. Rannveig ég er sko alveg til í að koma í heimsókn til að hitta kisurnar þínar, þig kannski aðeins líka, en ég hef lítinn tíma núna þegar gestatíminn byrjar á Skipó því ég er auðvitað aðalmaðurinn og verð að standa mig vel eins og amma.

Bless. Sigurjón Torfi.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Fyrsta tilraun

Nú ætla ég að vígja nýju bloggsíðuna sem hún Þórunn Gréta systir mín var svo góð að hjálpa mér að stofna. Hér ætla ég að segja fréttir af mér og mínum því það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast hjá mér í sveitinni. Við mamma erum að vinna í ferðaþjónustunni á Skipalæk hjá ömmu og ég er mjög duglegur að hjálpa til, sérstaklega þó í þvottinum og þegar það er verið að búa um rúm. Mér finnst gaman að rugla rúmunum þegar það er búið að búa um en það finnst engum öðrum skemmtilegt og ég botna ekkert í því þessari smámunasemi þó að rúmfötin krumpist svolítið, það vita nú allir að þau krumpast hvort sem er þegar fólk sefur í þeim. Þegar allir eru orðnir voða pirraðir á mér þá er ég tekinn upp og settur á einhvern annan stað og ég sé alltaf eitthvað nýtt og spennandi. Mér finnst t.d.ruslafötur mjög spennandi bæði fullar og tómar og ég get endalaust dundað mér við að skoða rusl og tína það upp úr fötunum og dreifa því um allt.

Ég er farinn að ganga og eiginlega líka hlaupa því stundum finnst mér ég bara ekki fara alveg nógu hratt og mamma segir að ég fari stundum framúr sjálfum mér, ég skil nú ekki hvernig það er hægt en ég get nú ýmislegt sem aðrir geta ekki.

Það er lítið folald hér á Skipalæk og ég fékk að strjúka því og klappa þegar það lá úti í sólinni í gærmorgun. Við vorum miklir vinir þangað til ég potaði í augun á því en þá stóð það upp og fór. Mamma ætlar endilega að taka mynd af okkur saman og kannski get ég sýnt ykkur hana.

Meira síðar....Sigurjón Torfi

þriðjudagur, 27. maí 2008


Hér sé stuð!